Félagsmótun

Picture
Strax við fæðingu stöndum við frammi fyrir löngu og flóknu námsferli sem kallast félagsmótun en í því felst að ómálga barn verður að nýtun þjóðfélagsþegni. Námsefnið er meðal annars tungumál, venjur, siðir og fleira sem tengist menningu þess samfélags sem við búum í. Þó að við séum ólík að eðlisfari er okkur kennt að lifa í ákveðnu samfélagi. Lifnaðarháttum okkar er stýrt í samskiptum við annað fólk þar sem við lærum að gera greinamun á réttu og röngu, fallegu og ljótu, viðeigandi og óviðeigandi sem þýðir að við getum ekki hegðað okkur eins og við viljum.

Ævilangt ferli
Félagsmótun er ævilangt ferli sem hefst á fæðingardeildinni og henni lýkur aldrei, því við erum jú alltaf að læra eitthvað nýtt. Mikilvægasta tímabil félagsmótunar er á fyrstu æviárum einstaklingsins. Smám saman öðlumst við reynslu og þekkingu sem gerir okkur kleift að taka þátt í daglegu lífi innan samfélags.

Engir tveir eru hins vegar mótaðir alveg eins, því félagsmótun er breytileg eftir stað og stund. Það þýðir að félagsmótun er ólík eftir löndum en einnig að það er munur á félagsmótun eftir því hvort einstaklingur er úr þéttbýli eða úr dreidbýli. Félagsmótun er líka mismunandi eftir fjölskyldum þrátt fyrir að þær séu á sama svæði. Annað sem hefur áhrif á félagsmótun er tími og það má best sjá með því að bera félagsmótun okkar við þá sem afi okkar og amma fengu.

Frummótun - Síðmótun
Venjulega er félagsmótun flokkuð í frummótun og síðmótun. Við frummótun lærir einstaklingurinn undirstöðureglur samfélagsins, þannig að hann geti átt samskipti við annað fólk og sé hæfur meðal manna. Þessi félagsmótun á sér helst stað innan fjölskyldunar. Síðmótun verður síðan þegar við vöxum úr grasi og höldum út í lífið. Hún gerist einkum innan skólans og vinnunnar, þótt ótal aðrir þættir komi einnig við sögu, svo sem félagar, íþróttafélög, fjölmiðlar og fleira

Áhrifavaldar:
Fjölskyldan er jafnan talin mikilvægasti aðilinn í félagsmótun. Þar er lagður grunnur að öryggiskennd og sjálfstrausti barnsins en þessir þættir eru afgerandi fyrir hvernig það þroskast sem sjálfstæður einstaklingur. Foreldrar eru oftast fyrirmyndir barna sinna bæði hvað varðar góða og slæma siði og á unga aldri læra börn meðal annars að herma eftir fyrirmyndum sínum.

Skólinn: Eftir því sem börn eldast því stærra hlutverk spilar skólinn á móti fjölskyldunni í félagsmótuninni. Hlutverk skólans er meðal annars að miðla hugmyndum og gildum sem eru ríkjandi á hverjum tíma og kenna okkur færni og þekkingu. Þessir þættir endurspegla kröfur samfélagsins um hvað sé nauðsynlegt að kunna til að geta orðið nýtir samfélagsþegnar.

Félagar: Eftir því sem á líður verða félagarnir eða vinahópurinn sífellt mikilvægari félagsmótunaraðili. Þá fera viðhorf og háttarlag jafnaldra ekki síðr að skipta miklu máli en viðhorf og háttarlag þeirra fullorðnu. Unglingsárin eru ár mikilla breytinga og reynir unglingurinn að losa sig undan áhrifum fjölskyldu sinnar sem hefur verið kjölfestan í lífi hans fram að þessu.

Vinátta: Á unglingsárunum skiptir fjölskyldan minna máli en vinirnir. Vinátta er öllum nauðsynleg en mikill munur er á vináttusamböndum milli stelpna annars vegar og stráka hins vegar á unglinsárunum.  Algengast er að stelpur myndi eitt eða tvö náin trúnaðarsambönd og í þeim er öllum hugsunum og tilfinningum deilt með vinkonunum. Vinahópur stráka er yfirleitt mun stærri en hjá stelpunum og því verða vináttubönd milli þeirra ekki eins náin.  Í stað þess að ræða tilfinningamál fer allur hópurinn til dæmis út í fótbolta.

Fjölmiðlar: Fjölmiðlar miðla gildum, væntingum, viðmiðum og reglum til fólks daglega. Þeir ná til fjölda fólks á sama tíma og eru því öflugir í að dreifa skoðunum og viðhorfum út í samfélagið. Áhrifaríkustu fjölmiðlarnir eru sjónvarp og Netið, en af öðrum fjölmiðlum má nefna dagblöð, tímarit, bækur og geisladiska.  


Heimild:  Garðar Gíslason. 2008. Félagsfræði: Einstaklingur og samfélag. Mál og menning. Reykjavík
Uppruni myndar: http://blog.zizoops.com/funny-people/cute-photographs-of-sleeping-babies.html/attachment/newborn-photography-11